3.11.2006 | 20:14
Kósí við kertaljós
Ég sat og málaði seint í gærkvöldi við kertaljós þar sem ekkert var rafmagnið og þar af leiðandi ekkert internet..... Vatnselgurinn hefur streymt allar götur síðan í gær en stytti upp seinnipartinn. Ég er búin að skipta um föt þrisvar í dag þar sem fötin eru fljót að verða blaut í úrhellinu. Tími til kominn að fá smá vætu á þetta svæði, en drykkjarvatnið var að verða uppurið að mér skilst, ekkert skrítið þegar sólin skín 320 daga á ári, rigningin sést sjaldan hér í San Miguel, en þegar hún kemur þá kemur hún af fullum krafti og með rafmagnsleysi inn á milli.
Skrapp í strigabúð bæjarins og sótti síðustu 4 strigana í 20X20 cm, er búin með alla mína í þeirri stærð og vantaði fleiri til að halda áfram með englamyndirnar mínar, en ég var að klára fjórða engilinn í vikunni, kannski maður smelli þeim inn á björkina um helgina, tími til kominn að eitthvað gerist á þeirri síðu.
Helgin er brostin á, kvöldmaturinn afstaðinn, háttatíminn að ganga inn um dyrnar hjá börnunum... Ég ætla að spjalla við englana mína og bið um góða helgi fyrir alla.
1.11.2006 | 22:01
Lífið og tilgangurinn
Það er svo gott að hafa stjórn á eigin lífi.... það finnur maður gleggst þegar maður hefur enga stjórn, eða finnst maður allavega ekki hafa neina stjórn..... þegar maður fer út fyrir "þægindasviðið" sitt og þarf að takast á við ýmis verkefni sem annars flokkast ekki undir hið "venjulega".
Samt er það svo að maður hefur alltaf stjórnina, maður velur hvernig maður bregst við verkefnunum sem manni eru færð. Ég vel stundum að bregðast við með öllum illum látum og streitast á móti, en finn yfirleitt til lengdar að sú leið hentar mér ekki, að það gerir mér ekkert gott.
Ég trúi því að það sé tilgangur með öllum þeim verkefnum sem okkur eru færð, þó stundum sé erfitt að sjá það á meðan maður glímir við þau. Ég er þakklát fyrir lífið mitt og það sem það hefur fært mér, fyrir fólkið sem hefur orðið á leið minni, ég er þakklát fyrir öll þau verkefni sem ég hef fengið, því þó sum hafi verið erfið og sár og önnur yndisleg og falleg þá eru þau öll partur af því sem ég er í dag.
31.10.2006 | 22:31
Hrekkjavakan
Mínir drengir tóku ekki þátt í hrekkjavökunni hér á eiginlegan máta, heldur eyddu síðdeginu sínu í að hrekkja mömmu sína, Aron öskraði af lífs og sálarkröftum á meðan Ágúst selbitaði hann í eyrað, hræddi hann með sprengjusögum og tók STÓRT fýlukast á mömmu sína fyrir að leyfa sér ekki að fá verðlaun fyrir óþekka hegðun og sagði henni hversu vond mamma hún væri. ÚFF segi ég bara, erfitt síðdegi vægast sagt, þegar þeir taka sig til svona allir í einu, Anton reyndar var ekki með læti en "láðist" að segja mér frá einkunn úr síðasta prófi - einkunn sem hann getur ekki verið ánægður með. Ég lét í mér heyra, vægast sagt og endaði á að loka mig af frá þeim á meðan storminn lægði.....
Aron hefur verið að þjálfa með sér hátíðni öskur sem fer í mínar fínustu, það dregur úr manni allan kraft, ekki veit ég hvernig þetta endar ef ekki með ósköpum ef honum fer áfram svona hratt fram í hátíðninni......
En, það er allt dottið í dúnalogn núna, þeir sofnuðu fyrir klukkutíma eftir að hafa verið stilltir síðasta klukkutímann eða svo.
Ég kveikti í hárblásaranum mínum í morgun, fattaði það þegar reykjarstrókinn lagði um baðherbergið og skrítin lykt barst að vitum mínum....hann fór í ruslið og nýr var sóttur í Carrefour eftir vinnu... reyndar með herkjum en mér var hafnað afgreiðslu á 2 kössum þegar ég ætlaði að borga....og seinvirk afgreiðsla á þeim þriðja sem ég stillti mér upp við.... eftir að hafa hreytt ónotum í afgreiðslukonuna á kassa 2..... skamm skamm, en ég átti nú seinu afgreiðsluna skilið fyrir að vera ókurteis.....
Held ég búist við góðum degi á morgun, eftir svona dag
27.10.2006 | 20:34
Mikið mikið var
...að losnaði um þessa svakalegu stíflu hjá mér, eins og að vera með þvílíkt harðlífi en geta ekki losað, og vera samt mál......
-Ég er sem sagt farin að mála aftur eftir laaaaanga fjarveru frá penslunum, eða frá í sumar, 3 myndir komnar af stað í kvöld, litlir englar.......
Það er púki í mér í kvöld, strákarnir eru sofnaðir nema Ágúst sem er ekki heima, hann ætlar að hrella bestu vinkonu mína í allt kvöld þar sem hann fær að gista hjá henni og vini sínum, en rólegt hjá mér og því tilvalinn tími til að púkast í strigunum, thihihihi.....
En mér er ekki til setunnar boðið, sí jú leiter alligeiter.......
25.10.2006 | 18:45
Ég er hér enn
...allavega að hluta....
Afmælisgjöfin var keypt, mamma fór, Tóti kom og fór, ég skráði mig í Flamenco dans......
Furðulegir dagar og eftir situr óoppnaður pakki af Cheeriosi sem er á leiðinni héðan aftur þangað sem hans er meiri þörf. Cocoa Puffs og Siríus súkkulaði eiga þó ekki afturkvæmt eftir viðkomu hér...
Ég get ekki tekist á við fleiri kveðjustundir í bili, það er sárt að horfa á eftir þeim er eiga samastað í hjartanu.
Shakira dillar bossanum núna á fóninum, kannski ég fylgi í hennar fótspor.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.10.2006 | 21:17
Helgin á enda og margt búið að gerast
Í gær átti hann Ágúst afmæli, hann er "loksins" orðinn 8 ára! Hann bauð nokkrum velvöldum vinum hingað heim í pizzu og tertu og var sæll og glaður með daginn. Móðirin var þó ekki að standa sig og á enn eftir að kaupa afmælisgjöfina hans, en leysir úr því á morgun.
Óvæntur glaðningur að auki á heimilinu í gær, mamma kom í heimsókn og verður hjá okkur fram á miðvikudag, okkur öllum til mikillar ánægju.
8.10.2006 | 16:45
Á sandölum og ermalausum bol
...jamm, á Spáni er gott að vera.
Rosa fínn hiti hér á þessum árstíma, ekki of heitt og ekki of kallt. Reyndar þarf núna aðeins meiri klæðnað en áður á kvöldin, en ermalaus bolur getur samt alveg verið að gera sig.
Ég skellti mér í sólbað uppi á þaki áðan.... reyndar bara í smá stund, en þó!! Ég hef aldrei verið dugleg við að liggja bara og sóla mig....vil helst hafa eitthvað fyrir stafni á meðan sólin steikir.
Ég fór í 2 ljósatíma á Íslandi !!! og finn hvað það gerir manni gott að hafa smá lit í kinnum, svo ég hef hugsað mér að reyna að viðhalda pínulitlu af brúnkunni sem komin er eftir sumarið, ég vil ekki verða aftur eins hvít og ég var síðasta vetur....held ég hafi bara aldrei verið eins hvít og eftir að ég flutti í sólina.......
Ég er enn ekki búin að "jafna" mig eftir Íslandsförina, þrátt fyrir að það sé mánuður síðan ég kom til baka.... lífið er ekki enn fallið í sama farið hjá mér..... ég er ekki búin að mála eina einustu mynd síðan í Munaðarnesi, ég hef ekki einu sinni reynt! Held ástandið sé orðið frekar alvarlegt barasta.... Ég finn löngunina, en ég hef ekki framkvæmdina með mér undanfarið, og það á reyndar við um flest.
Mér finnst það hálf fúlt satt að segja, og sér í lagi þegar ég veit að það er bara að spíta í lófana og hefjast handa, en þar við situr.... á meðan maður gerir ekkert þá gerist ekkert.....
Best að taka smá "spark í rassinn" æfingu núna, það bæði ætti að styrkja lærvöðvana og skilja nokkur afreksverk eftir, hehehe.....
7.10.2006 | 21:09
Helgin komin
Ég er svo sátt við tískuna þessa dagana.... get ekki dásamað hana nóg, fullt af fötum í búðum bæjarins.... ég fékk meira að segja gallabuxur á mig núna, hvítublettabuxnatískan er loksins að hverfa af yfirborðinu og "venjulegar" buxur að verða allsráðandi á ný. Fyndin þessi tíska, ég man eftir mér í þverröndóttum leggings og í stuttu pilsi fyrir svosem 18-20 árum síðan.... eða í peysum sem náðu niður fyrir rass..... finnst þessi tíska svo kúl, get ekkert að því gert Ég man reyndar líka eftir að hafa átt rifnar snjóþvegnar gallabuxur en ég gat engan vegin fengið mig til að fíla þá tísku aftur þegar hún stóð sem hæst "hér um árið". Mér finnst aftur á móti skræpóttir eða munstraðir sokkar og leggings alveg rosa smart, og fást út um allt núna - bókstaflega..... Best að vera duglegur að birgja sig upp af fallegum fötum á meðan þau fást, reyna að velja eitthvað sem er ekki of tískubólutengt, svona til að birgja sig upp fyrir næsta fataskort..... því það er nokk víst að tískan breytist fljótt.... (hvenær skyldu risahjútsstóru axlarpúðarnir verða aftur inn? ).
Minnstingurinn á heimilinu fékk peysubol úr H&M, með mynd af mótorhjóli framan á, hann er sko í honum núna.... og hann er sofandi, hehe, vildi alls ekki fara úr nýja bolnum sínum..... talandi um að krókurinn beygist snemma, líkist strax stærsta bróður sínum..... en sá í miðið er alveg laus við að spá í fatnað...því miður, en ég þarf að fylgjast grannt með að hann skipti um föt, því honum er sko alveg sama þó hann sé haugdrullugur eða þess vegna í rifnum fötum, misskipt áhugasviðið hjá þeim bræðrum ha!
Í dag er merkisdagur en Zórdísin mín á brúðkaupsafmæli, þau skötuhjúin sitja núna að snæðingi á einhverju dýrindis veitingahúsinu í tilefni dagsins, til hamingju sætust!
Og ég þarf að fara í "korvstoppning" eða þannig.... ætla að lesa smá skólabækur (reyna að troða einhverju þarna inn í heilann).
Smúsettí knús**
2.10.2006 | 15:19
Frí frí frí, letifrí...
Já, nú er mín búin að vera í algjöru letifríi, og ekki búin enn.....
Reyndar þurfti ég að vakna í morgun til að fara með börnin í skólann, og til viðbótar er ég búin að fara 3svar til viðbótar í skólann í dag, hehe, það er svo gaman í skólanum.....
Strákarnir komu nebbla allir heim í hádeginu, þannig að þá þarf að sækja og skila þeim aftur og svo sækja enn á ný...... Aron var reyndar ekki par hrifinn af því að fara aftur og var tekinn smá grátur á kveðjustund, en það varði víst ekki lengi.
Núna sitja 4 strákar í eldhúsinu og gera heimaverkefnin sín, það kom einn vinur með að læra og að sjálfsögðu vildi Aron líka fá að gera heimanám, eins og eldri strákarnir.....
Ég þarf reyndar að gera einn hlut í dag og það er að lokka karlinn minn til að skipta um ljós í svefnherberginu, en gamla ljósið er úrelt og ljótt inn í nýmálað herbergið, þarf að hugsa upp eitthvað sniðugt til að fá hann í verkið.... -ég er víst ekki vel að mér þegar kemur að því að tengja rafmagn....hehehehee....
Þrátt fyrir það að ég hafi verið komin með yfirdrifið nóg af því að mála mitt herbergi þá langar mig núna að mála alla íbúðina, reyndar ætla ég að halda mig á mottunni í smá stund, það eru nokkur verkefni sem ég vil klára fyrst, en ég ætla að fara að hugsa út litina bráðlega fyrir hina veggina....
Það verða þó ekki dökkir litir hvað sem hverju líður þar sem ég NENNI EKKI að mála 4 umferðir aftur á hvern vegg
Jamm og jæja, ætla að tékka á stöðunni á heimanáminu, knús smús**
24.9.2006 | 21:10
Í rósrauðum bjarma....
...sit ég og bíð þess að sá yngsti sofni. Kláraði loksins að mála svefnherbergið mitt í kvöld og kveikti á nýja gólflampanum mínum, ekkert smá kúl birtan sem ég fæ hér inni hjá mér! Bara gaman þegar verkefnin klárast og maður getur einbeitt sér að öðrum hlutum, sér í lagi þegar af nógu er að taka!
Ég á góðan lager af strigum sem ég verslaði fyrir Íslandsför mína er bíða þess að verða skreyttir dýrindis listastrokum olíulitanna, ég er farin að hugsa mér gott til glóðarinnar í komandi fríi
Ég fór ekki út úr húsi í dag þrátt fyrir blíðviðri, á milli þess sem ég penslaði veggi tók ég mig til og kafaði í skápa og skúffur, strákarnir fóru 2 ferðir út í ruslagám með afraksturinn af því sem ég týndi þar út fyrir utan allt það sem ég ætla að bjóða til endurnýtingar, en það fer í annarri ferð á morgun. Ekkert smá hvað maður sankar að sér, það er alveg ótrúlegt!! Elsti sonurinn tók sig líka til og henti og henti, sem betur fer hefur hann það í sér að taka almennilega til annað slagið, sá í miðið er bara að krafsa á yfirborðinu og sá yngsti draslar bara til!! Ég er alltaf að reyna að segja þeim að þeir eigi að kenna honum tiltektarlistina, þá væri lífið mun einfaldara.....því mun fleiri sem taka til hendinni þeim mun minna á mann, ha! - og þar af leiðandi meiri tími til skemmtilegri hluta...
Jamm, en nú er stúfur að detta út af, best að nota sénsinn og stökkva í sturtu, ekki veitir af að skola af sér málningarsletturnar!!